Manchester City-Klúbburinn á Íslandi

Sunnudaginn 31. ágúst 2003 fjölmenntu stuðningsmenn Manchester City í Ölver til að endurvekja stuðningsmannaklúbb félagsins. Mjög góður andi var á fjölmennum fundi. Menginmarkmið félagsins er að safna saman öllum áhangendum Manchester City á Íslandi í öflugt stuðningsmannafélag og efla tengsl þeirra á milli í gegnum netfréttabréf, standa fyrir ferðum á leiki liðsins, koma saman og horfa á leiki í Ölveri og tengjast erlendum stuðningsmannaklúbbum liðsins. Þriggja manna stjórn skipa Magnús Ingvason, formaður, Tómas Hallgrímsson og Sveinbjörn Jóhannsson. Ef þið hafið áhuga á að ganga í Íslenska Manchester City - klúbbinn, sendið þá tölvupóst til Magnúsar Ingvasonar, [email protected]. Hér fyrir neðan má sjá fréttabréf Manchester City - klúbbsins.

2.árgangur | 1.árgangur


NET-FRÉTTABRÉF

MANCHESTER CITY - KLÚBBINS

2. TÖLUBLAÐ - 2. ÁRGANGUR - 30. September 2004


Ágætu félagar.

1. Enn ætlum við að vera í ákveðnu ströggli í deildinni og sigrarnir eru torsóttir. Þeir fara vonandi að streyma inn.

2. Sigurinn um daginn gegn Crystal Palace kom á góðum tíma, eftir tap gegn Everton á heimavelli. Nauðsynleg 3 stig og í kjölfarið kom 7-1 sigur á Barnsley í bikarkeppninni þar sem 5 leikmenn skoruðu fyrir okkur. Gott mál. Um síðustu helgi tapaði liðið svo með minnsta mun, 1-0 gegn Arsenal. Okkar menn átti a.m.k. 3 nokkuð góð færi sem ekki nýttust.

3. Núna um helgina mætir Manchester City liði Southampton á útivelli. Og í fyrsta sinn í haust sýnir Skjár 1 leikinn beint. Því ber að fagna. Loksins. Það er því spurning hvort félagar í Manchester City-klúbbnum á Íslandi fjölmenni ekki í Ölver í Glæsibæ og horfi saman á leikinn sem hefst kl. 11:45. Það er kannski ráð að hittast aðeins fyrr og ræða málefni klúbbsins okkar og framtíðarhorfur.

4. Skjár 1 ætlar að hysja betur upp um sig buxurnar síðar í október þegar þeir ætla að sýna leik City og Chelsea. Vonandi sýna þeir sem flesta leiki hjá liðinu í vetur; fjöldinn vill það!

5. Það er ýmislegt sem kraumar undir hjá liðinu. Slúðurblöðin í Englandi keppast við að afskrifa Kevin Keegan og þess á milli koma fréttir þess efnis að Arsenal, Tottenham, Liverpool og fleiri lið ætli sér að kaupa Shaun Wright-Philips í janúar. Í framhjáhlaupi má nefna að bróðir Shaun, Bradley Wright-Philips er heitasti ungi framherjinn hjá liðinu um þessar mundir og er að skora grimmt fyrir varaliðið. Til að núa salti í sár City-manna birtast einnig fréttir um að Paulo Wanchope sé að verða einn heitasti framherjinn á Spáni, en City lét hann frá sér fyrir skiptimynt. Það er sótt að okkur víða. Við látum það hins vegar ekki á okkur fá.

6. Nokkrir félagar höfðu samband eftir útgáfu síðasta fréttabréfs. M.a. nefndi einn að hann hefði ekki tök á að fara í sérstaka City-ferð á meðan annar vildi endilega skoða alla kosti. Þá nefndi einn að hann hefði áhuga á að skoða aðild að erlendum klúbbum og var sá sami tilbúinn að greiða fyrir það. Það er því ýmislegt í gangi sem hægt er að ræða um.

7. Jæja, vonandi koma sem flestir í Ölver á laugardaginn, sjáum okkar lið vinna Southampton á The Dell (heitir völlurinn það ekki?) og ræðum málin.
City-lifir að eilífu. Amen.
Magnús Ingvason, formaður


NET-FRÉTTABRÉF

MANCHESTER CITY - KLÚBBINS

1. TÖLUBLAÐ - 2. ÁRGANGUR - 10. September 2004


Ágætu félagar og gleðilegan vetur!

1. Jæja, þá er ný leiktíð hafin og fyrsti sigurinn í höfn. Hann kom þó því miður ekki fyrr en í fjórða leik. Maður hefur að sjálfsögðu miklar væntingar til okkar manna og vonar að það gangi heldur betur en í fyrra.

2. Ég ætlaði reyndar að koma út fréttabréfi fyrir fyrsta leik mótsins. Þegar ég sá að ég næði því ekki, þá hugsaði ég sem svo að fínt væri bara að ávarpa félagsmenn eftir fyrsta leikinn, sérstaklega ef hægt hefði verið að gera það á eftirfarandi hátt: Ágætu félagar, við byrjum af krafti og fyrstu 3 stigin í hús. Ekki gekk það eftir og við gerðum jafntefli við Fulham þar sem þeir þóttu hundaheppnir. Mér leist svo fjandi vel á þetta ávarp að ég hugsaði þá að ég myndi bíða með fyrsta póstinn þangað til fyrsti sigurleikurinn væri í húsi. Í kjölfarið komu svo tveir ósigrar; gegn Liverpool og Birmingham, báðir með minnsta mun. Ég fór þá að óttast að ég kæmi ekki póstinum út í bráð! Svo náttúrulega sýndu okkar menn styrk sinn um þarsíðustu helgi og unnu stórsigur á liði Charlton. "Thank God" hugsaði ég og fékk því gott tækifæri til að koma út þessum fyrsta pósti leiktíðarinnar. Ávarpið er þó ekki eins og ég ætlaði og hefði kosið.

3. Ég hef hugsað mér að koma út þessu NET-fréttabréfi nokkuð reglulega. Í fyrra náðist að koma út 9. "eintökum" og vonandi verða þau ekki færri í vetur. Ég óska eftir sem áður að félagsmenn hjálpi mér við útgáfuna, rétt eins og í fyrra þegar fjöldi félagsmanna sendi inn fína pistla og góðar hugmyndir. Þeir sem af einhverjum ástæðum misstu af fréttabréfi/bréfum í fyrra, eða eru að koma nýir inn í félagið, þá má benda viðkomandi á að hægt er að lesa fréttabréfin á íslensku Manchester City-síðunni.

4. Þrátt fyrir að ekki hafi gengið sem skyldi í fyrstu fjórum leikjunum, þá hef ég samt sem áður enga ástæðu til að ætla annað en að vel gangi í vetur. Ég vil nefna tvennt sem ég tel að geti komið okkur til góða í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir í úrvalsdeildinni á Englandi. Fyrst er að leikmannahópurinn er svipaður og í fyrra. Nú kunna einhverjir að lyfta brúnum. Ég vil meina að alltaf sé verið að tala um stöðugleika á liðum og þjálfarar um allan heim staglast á því að lið þurfi svo og svo mikinn tíma til að öðlast þennan stöðugleika. Alltaf sé verið að horfa til framtíðar í uppbyggingu á liði. Ég vil trúa því að Keegan hafi í fyrra verið að spá í þetta. Fullt af nýjum mannskap í fyrra hafi verið að kynnast og læra inn á hvern annan síðasta vetur. Nú þekkjast menn og geta vonandi búið til sterkari liðsheild. Önnur lið hafa verið að fá allt að 10 menn, héðan og þaðan og það tekur tíma fyrir þessa menn að aðlagast liðinu og knattspyrnunni. Við erum sem sagt með lið sem er búið að leika mikið saman. Svo er reyndar spurning hvort geta manna sé nægileg og vil ég trúa því að svo sé. Annað er að tölfræðin segir að fyrsta tímabil á nýjum velli reynist ekki vel. Þetta ku vera þvílíkt margsannað á Englandi og fyrir nokkru sá ég ítarlega tölfræði um þetta.

5. Það er annars ástæða til að staldra aðeins við og hugleiða stöðu og framtíð þessa félagsskapar okkar. Eins og í fyrra, á fyrsta ári nýs félags, þá komu fram ýmsar hugmyndir um starfsemi félagsins. Segja má að starfseminni hafi mátt/megi skipta í nokkra þætti:
Í fyrsta lagi að halda góða skrá yfir stöðugt vaxandi félag. Í dag eru 44 félagar á skrá, þar af 42 með netfang. "Starfsemin" fer því að miklu leyti fram í gegnum þennan netpóst auk þess sem að félagarnir hittust af og til í Ölveri í fyrra til að horfa á leiki. Það var alla jafna mjög skemmtilegt og yfirleitt unnust leikirnir! Enn er þó vitað um fjölmarga stuðningsmenn sem nauðsynlegt er að "ná böndum yfir." Ég vil því hvetja alla sem fá þennan póst til þess að vera vel á verði og safna félögum.
Í öðru lagi að hittast og horfa saman á Manchester City-leiki. Eins og segir hér að ofan hittumst við oft í Ölveri og gaman væri að gera það áfram í vetur, þrátt fyrir að enska knattspyrnan sé aðgengileg mun fleirum eftir að hún fór á Skjá 1 (eða Símann!). Ástæða er þó til að hittast á völdum leikjum og verður það tilkynnt með einhverjum fyrirvara. Reyndar stendur Skjár 1 sig þó ekki nógu vel að mínu mati og í yfirliti yfir leiki septembermánaðar sá ég engan City-leik sem verður sýndur. Oj.
Í þriðja lagi að spá í hópferð á City-leiki. Þetta var rætt af og til síðasta vetur án sérstakrar niðurstöðu. Vitað er um að menn fara á City-leiki á veturna, kannski með öðrum hópum o.s.frv. Sjálfur fór ég á City-leik með 10 félögum mínum, en þetta var 8. skiptið sem við förum út saman. Enginn þeirra er reyndar City-maður, en við höfum þó farið tvisvar sinnum að sjá þetta frábæra lið. Ferð hefur verið sett upp í vetur og ég veit ekki hvort ég "meiki" aðra ferð, sérstaka City-ferð. Svona aðstæður gætu átt við fleiri, en ef hægt væri að setja upp áhugaverða ferð í vetur er aldrei að vita hvað maður gerir. Þarfnast umræðu.
Í fjórða lagi tengjast erlendum stuðningsmannaklúbbum. Þetta atriði hefur nú farið ofan garð og neðan í okkar klúbbi. Sú leið hefur ekki verið farin að menn greiði félagsgjald, en oft er það þannig að til að tengjast t.d. alþjóðlega City-klúbbnum, þá þarf að borga fyrir það. Það getur vel verið að menn séu tilbúnir til að greiða félagsgjald, en þá er reynslan sú að menn vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð, þannig lagað. M.ö.o. gæti orðið erfitt að rukka ársgjald ef beinn hagur er ekki fyrir hendi. Þetta má þó ræða og alls ekki útiloka neitt.
Í fimmta lagi að "gæta hagsmuna" Manchester City á Íslandi. Sem stuðningsmaður Manchester City er maður að gæta hagsmuna félagsins nánast á hverjum degi (og líkar vel). Hver kannast ekki við það að Man Udt, Liverpol, Arnseal og Chelsae-stuðningsmenn (vinir mínir þola illa þessa stafsetningu á liðunum) tali niður til okkar frábæra félags og maður er orðinn nokkuð sjóaður í þeim slag. Mottóið er að enginn eigi neitt hjá manni þegar kemur að City. Auðvitað erum við dálítill minnihlutahópur og sem hluti hans hefur maður lent í ýmsu. Að auki tel ég nauðsynlegt að bregðast við "stjörnu"dýrkun fjölmiðla á Íslandi og hef hug á að vinna aðeins í þeim málum. Þessi endalausi eltingaleikur fjölmiðlamanna við að gera stuðningsmönnum ofantaldra 4 liða (og nokkurra annarra) lífið léttbærara gengur stundum út í öfgar og eflaust kannist þið allir við að þulir á leikjum tala oft niður til okkar liðs. Það mátti t.d. ekki minnast á Robbie Fowler síðasta vetur án þess að einnig væri rætt um hvað hann væri feitur og alltaf fullur. Og af því að Anelka brosir ekki eftir að hafa skorað mörk, þá komust sérfræðingarnir að þeirri niðurstöðu að hann væri svo ofboðslega óánægður hjá City!! Kommon!!!! Svona bull fékk maður nóg af sl. vetur.
Í sjötta lagi að gera eitt og annað sem getur þjappað stuðningsmönnum Manchester City á Íslandi saman. Undir þennan lið fellur eitt og annað sem hægt er að gera klúbbnum okkar til framdráttar. Eins og í öðrum liðum hér að ofan eru góðar hugmyndir vel þegnar.

6. Ég tel rétt að "starta" tímabilinu formlega með því að við stuðningsmenn Manchester City fjölmennum t.d. í Ölver fljótlega (um leið og Skjár 1 sýnir leik), hittast kannski klukkutíma fyrir leik, ræða málin og setja okkur í gírinn. Það má allt eins kalla slíka samkomu aðalfund, svona til þess að hafa þetta á formlegu nótunum.

7. Þegar þetta er skrifað, á föstudagseftirmiðdegi 10. september, þá er leikur gegn Everton framundan. Það er ósk mín og örugglega ykkar allra að sigur vinnist í þeim leik. Ekki veitir af í þessari hörðu keppni. Vonandi verður helgin ánægjuleg fyrir okkur.

8. Ég vildi koma þessu NET-fréttabréfi út núna til þess að koma klúbbnum okkar af stað. Stefnt er að því að koma út öðru bréfi hið fyrsta og þá væri verulega gott að vera búinn að fá einhver viðbrögð frá ykkur.
City-lifir
Magnús Ingvason, formaður


Hosted by www.Geocities.ws

1