Manchester City-Klúbburinn á Íslandi

2.árgangur | 1.árgangur


NET-FRÉTTABRÉF

MANCHESTER CITY - KLÚBBINS

8. TÖLUBLAÐ - 28. MAÍ 2004

        ________________________________________________________________________________________________________

Ágætu félagar.

1. Sjúkk. Þá er þessari (ömurlegu) leiktíð lokið - sem betur fer. Maður hafði fínar væntingar í haust og eftir fyrstu leikina taldi maður liðið með þeim allra bestu á Englandi. En svo fór liðið að hiksta og frá jólum hefur þetta verið hræðilegt, með tveimur til þremur undantekningum. Hæst ber náttúrulega burstið á Manchester United.
2. Ég ætla svo sem ekki að fabúlera mikið um leikmenn, en má þó til með að tjá mig aðeins um þetta. Ég myndi vilja kaupa van Buyten (sem mér finnst mjög góður) og annan sterkan varnarmann. Svo þarf að koma miðjumönnunum í betra stand og fá markaskorara. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með nokkra leikmenn liðsins og ef þeir ætla sér einhverja framtíð hjá okkur þurfa þeir að gera betur. Ég sé t.d. ekki að Dunne, Reyna, Boswelt, Mc Manaman, Wanchope, Macken og mögulega fleiri hafi erindi í liðið á næsta ári. Ég hef hins vegar trú á nokkrum leikmönnum og tel að þeir komið liðinu í fremstu röð. Fowler hefur sýnt gamla takta síðari hluta móts og þarf einfaldlega að byrja tímabilið í betra formi, Sinclair finnst mér að eigi að geta meira, Barton er efnilegur og gæti orðið mjög góður næstu tímabil, Sun Jihai finnst mér mjög skemmtilegur (og vil fá hann sem kantmann vegna hraða og góðra sendinga) og Distin finnst mér geta leikið vel með góðum mönnum sér við hlið. Ekki þarf að fjölyrða um markmanninn og vonandi verður Árni Gautur áfram.
3. Þá er ógetið tveggja "stórra nafna," þeirra Anelka og Shaun Wright-Philips (Elk og SWP eins og þeir eru kallaðir). Rætt er um það í Englandi að Arsenal ætli að bjóða í SWP í sumar og Liverpool á að vera tilbúið með 10 milljón punda tilboð. SWP má einfaldlega ekki fara. Hann er frábær leikmaður og á eftir að verða stórstjarna. Vonandi fær hann tækifæri með enska landsliðinu á EM í sumar. Hvað Anelka varðar er ég á báðum áttum. Fyrir u.þ.b. þremur vikum var birt í netfréttabréfi enska MC - klúbbsins eftirfarandi staðreynd: Þegar Anelka er í liðinu hefur 1 leikur af 21 unnist. Þegar hann er utan vallar hefur liðið unnið 3 leiki af 8. Ekki góð statistik. Hann er þó frábær leikmaður sem maður heldur samt alltaf að geti meira.
4. City lék gegn Leicester um síðustu helgi. Góður hópur stuðningsmanna hittist í ljósbláa salnum í Ölveri og horfði á leikinn. Það var taugatrekkjandi leikur, enda mikið í húfi. Mikil óánægja braust út þegar Leicester jafnaði, en menn hresstust aðeins þegar James varði vítið frá Dickov, okkar gamla leikmanni. Fúl úrslit, en skárri en tap. Fyrir mína parta hefði ég viljað sjá breytingar á liðinu fyrr í leiknum, en eina skiptingin kom þegar mínúta var eftir af uppbótartímanum (Sibierski kom við boltann; skallaði að marki).
5. Nú eru aðeins 3 leikir eftir af mótinu; gegn Newcastle heima, Middlesbro úti og lokaleikurinn er gegn Everton heima. Maður bara biður æðri máttarvöld um að sá leikur skipti engu máli. Ég held að ég hafi ekki heilsu í annað.
6. Núna á laugardaginn, 1. maí verður leikur City og Newcastle sýndur í Ölveri. Það væri frábært ef sem flestir félagsmenn myndu hittast og eiga góða stund saman. Ég skora síðan á menn að fylgjast með síðu 667 í textavarpinu þegar kemur að tveimur síðustu leikjum mótsins og skunda niður í Ölver ef þeir leikir verða sýndir.
7. Ég þarf líka að biðjast afsökunar. Í síðasta fréttabréfi hvatti ég menn til að mæta og horfa á City gegn Aston Villa í Ölveri. Sá leikur var síðan ekki sýndur. Mér var þó sagt að menn færu yfirleitt inn á síðu 667 til að fá staðfestingu og þar var leikurinn ekki nefndur (ekki spyrja mig hvernig ég fékk þessa flugu í höfuðið). Menn hafi því almennt ekki mætt. Enginn hefur skammað mig ennþá og vonandi er það merki þess enginn hafi farið fýluferð.
8. Nú gefst stuðningsmönnum kostur á að kaupa gömul sæti frá Maine Road, en verið er að rífa leikvanginn niður. Mér skilst að sætið kosti 10 pund.
9. Félagsmönnum í félaginu okkar fjölgar jafnt og þétt. Greinilegt að margir félagar eru vel vakandi fyrir "óskráðum" stuðningsmönnum. Síðast gengu Ísfirðingar í félagið.
10. Svo vil ég þakka hlý orð í minn garð vegna fréttabréfa félagsins. Ég vona a.m.k. að menn nenni að lesa þetta og hafi eitthvert gagn og gaman af því.
11. Að lokum vil ég minna á íslensku Manchester City-heimasíðuna.
Með Manchester City-sigurkveðju.
Magnús Ingvason, formaður


NET-FRÉTTABRÉF

MANCHESTER CITY - KLÚBBINS

7. TÖLUBLAÐ - 1. APRÍL 2004

        ________________________________________________________________________________________________________

Ágætu félagar.

1. Okkar liði hefur ekki gengið sem skyldi að undanförnu og er heldur neðarlega. Hátt ber þó glæsilegur, öruggur og auðveldur sigur á liði Manchester United, 4-1. Enn og aftur kemur í ljós hvort liðið er fremra í borginni.

2. Síðustu 2 leikir í deildinni bera þess merki að margt gengur okkur í óhag. Í leiknum gegn Leeds var Riley dómari í aðalhlutverki þegar hann dæmdi vítaspyrnu á okkar lið og sendi van Buyten af leikvelli. Algjör skandall. Ekki batnaði það í síðasta leik gegn Fulham þegar Macken var bókstaflega klipptur niður inni í vítateig. Eins og það var orðað í sjónvarpinu: "Það eru 46 þúsund manns sem sáu að þetta var víti, en 1 sá það ekki - og hann dæmir leikinn." Þessir leikir hafa því skilað okkur litlu.

3. Nú eru aðeins 8 leikir eftir af mótinu. Við þurfum a.m.k. 10 stig úr þessum leikjum, maður biður ekki um mikið meira og allt umfram það yrði plús. Ég er þó þeirrar skoðunar að lið okkar leiki góða knattspyrnu og finnst bráðgaman að horfa á það. Slappleiki/lánleysi upp við mark andstæðinganna hefur þó gert það að verkum að úrslit leikjanna eru ekki nógu góð.

4. Talað er um að við eigum frekar auðvelda leiki eftir. Á heimavelli eigum við eftir að leika gegn Wolves, Southamton, Newcastle og Everton (síðasti leikur tímabilsins). Á útivelli eigum við eftir að leika gegn Aston Villa, Tottenham, Leicester og Middlesbro. Segja má að engir leikir séu auðveldir. Það getur verið mjög erfitt að leika gegn neðstu liðunum (Wolves, Leicester og Everton) á þessum tímapunkti; þau munu berjast fyrir lífi sínu. Það erum við reyndar að gera sjálfir þannig að vonandi verður barist til síðasta blóðdropa af okkar hálfu. Svo eru lið sem eru að berjast um 4. sætið (Newcastle og Aston Villa). Það er því ekkert gefið í þessum bransa.

5. Næstkomandi sunnudag, 4. apríl er ætlunin að hittast í Ölveri og horfa á leik Aston Villa og City sem hefst kl. 13:00. Gaman væri að sjá sem flesta stuðningsmenn á staðnum.

6. Eins og áður hefur komið fram fór ég í pílagrímsferð til Manchester í febrúar. Ég sá leik City og Birmingham sem lauk 0-0. Ég náði því að sjá leik á síðasta tímabilinu á Maine Road og eins leik á fyrsta tímabilinu á COMS (City of Manchester Stadium). Og þvílíkur völlur. Ég hef á undanförnum árum farið á eina 10 velli á Englandi og enginn völlur er með tærnar þar sem þessi er með hælana (næstir koma Reebok Stadium og St. James' Park). Ég bendi á mynd sem má finna af mér á vef ÍT-ferða, http://community.webshots.com/photo/117896800/118048847NgWctd.

7. Fyrir nokkru sigraði lið Manchester City í British Masters, en það er Old boys-landsmótið á Englandi. Margir frægir kappar leika á þessu móti eins og t.d. Paul Simpson, Steve Redmond, David White, Wayne Biggins og Paul Power. Alls tóku 8 lið þátt í mótinu, en City vann Rangers 3-1 í úrslitaleik.

8. Netfréttabréf City-manna á Englandi, MCIVTA (Man City Info Via The Alps) náði nýverið 1000 tölublaða markinu, þ.e.a.s. að frá upphafi hafa komið út 1000 fréttabréf (nú 1005). Þau koma iðulega tvisvar í viku og eru mjög góð. Þeir sem vilja gerast áskrifendur er bent á að senda póst á [email protected]. Í dag eru um 3300 áskrifendur víðs vegar um heiminn.

9. Í nýlegu fréttabréfi var því velt upp hvort ekki væri um einstæðan atburð að ræða ef David James og Árni Gautur Arason yrðu í sitthvoru markinu í landsleik á eigin heimavelli.

10. Af Árna Gaut er annars að frétta að hann fær ágæta einkunn fyrir varaliðsleiki sína. Hann hefur fengið frá 6 til 8 í einkunn fyrir 5 leiki sína og menn almennt ánægðir með frammistöðuna. Helst setja menn út á sparkhæfileika hans (needs to improve his kicking).

11. Shaun Wright-Phillips fékk náð fyrir augum Ericsons þegar hann valdi hann í enska landsliðið fyrir leikinn gegn Svíþjóð í fyrrakvöld. Hann fékk þó ekki að koma inná í leiknum. Hann verður vonandi í liðinu í Evrópukeppninni í sumar. Svo má nefna að yngri bróðir Shaun, Bradley leikur með varaliði City og þykir ekki síður efnilegur en stóri bróðir.

12. Í mörgum fréttabréfum MCIVTA eru skemmtisögur, ummæli og brandarar. Í lok þessa bréfs læt ég fljóta með efni sem birst hefur síðustu vikur. Þetta er undir heitinu Blue Humour. "Eðlilega" snúast brandarar mjög oft um Manchester United.

13. Stjórnarformaður Manchester City hefur gefið út að til standi að merkja völlinn okkar, City of Manchester Stadium, betur félaginu. Hann segir óhætt að gera það þar sem leigusamningur við Manchester-borg sé til 250 ára og því sé óhætt að gera einhverja varanlega hluti. Dálítið skrítin tilhugsun að líklega verði leikið á vellinum árið 2254.

14. Leik Manchester City og Everton fyrr í vetur var sjónvarpað til Kína, en með liðunum leikur sitt hvor landsliðsmaðurinn. Alls horfðu 300 milljónir manna á leikinn!!! Nú þegar hefur Manchester City opnað 6 stórverslanir í stærstu borgum Kína og gengur salan mjög vel. Til stendur að opna mun fleiri verslanir á næstunni.

15. Félagsmönnum í félaginu okkar fjölgar jafnt og þétt. Greinilegt að margir félagar eru vel vakandi fyrir "óskráðum" stuðningsmönnum.

16. Gaman væri að fá bréf frá félagsmönnum þar sem þeir tjá sig um ýmsa hluti. Vonandi tekst mér að koma næsta fréttabréfi út fljótlega og þá með einhverjum "kommentum" frá félögum klúbbsins.

17. Að lokum vil ég minna á að öll fréttabréf klúbbsins má finna á íslensku Manchester City-heimasíðunni.

Með Manchester City-sigurkveðju.
Magnús Ingvason, formaður



BLUE HUMOUR
1. A Man Utd fan walks into a Liverpool bar dressed up in his new Vodafone kit and orders a drink before noticing a picture of Bill Shankly on the wall. He was just about to leave when the barman says: "Where do you think you're going?" The Utd Fan replies: "I'm sorry, I just noticed Bill Shankly there and I think I'd better leave," The barman says: "No no no. It's too late for that. You've got to roll the dice Mate," The Utd Fan looks puzzled and says: "Roll the dice?" The Barman replies: "Yeh. If you roll between 1 and 5 we kick the cr@p out of you," The Utd Fan says: "What if I roll a 6?" The barman replies: "Then you do again."

2. What's the difference between Man City and Iraq's weapons of mass destruction? City really can destroy you in 45 minutes.

3. Manchester United have set up a call Centre for fans who are troubled by their current form. The number is 0800 10 10 10. Calls charged at peak rate for overseas users. Once again the number is: 0800 won nothing won nothing won nothing.

4. University medical student walked into the mortuary where a body was lying on the table. Confident that he knew enough now to begin the procedure without his instructor, he began to examine the body. When he rolled it over, he was shocked to see a cork in the man's butt. Mystified, he pulled it out and immediately heard Glory Glory Man Utd song come out of the guy's butt. Shaken by what had happened, he quickly shoved the cork back into it's original resting place. He then ran to get his instructor, nervously shouting, "Sir, you must come, you won't believe what I discovered!!" Annoyed by the interruption, the professor said, "Let's take a look at this astounding discovery." When they entered the morgue, the teacher was also surprised to see the cork, so he approached the table and promptly removed the cork. Upon hearing Glory Glory Man Utd, he quickly replaced the cork and said, "What's so surprising about that? I've heard thousands of @rseholes sing that song!"

5. Our defence leaks worse than the Titanic.

6. A family of Manchester United supporters head out shopping before Christmas, while in a sports shop, the son picks up a Manchester City shirt and says to his sister "I've decided that I am going to be a Manchester City supporter and I'd like this Manchester City shirt for Christmas!". The sister is outraged by this promptly whacking him around his head and says, "go and talk to your mother". Off goes the little lad, with the City shirt in his hand and finds his mother, "Mum", "Yes son?" "I've decided I'm going to be a Manchester City supporter and I'd like this City shirt for Christmas". The mother is outraged by this promptly whacking the lad about his head saying "go talk to your father". Off goes the little lad with his City shirt in his hand and finds his father "Dad", "Yes son?" "I've decided I'm going to be a Manchester City supporter, and I would like this City shirt for Christmas", the father is outraged by this and promptly whacks the lad about his head and says. "no son of mine is ever going to be seen in THAT!" About an hour later the family are in the car heading home, the fathers says "son I hope that you have learned an important lesson today". The son turn to the father and says "Yes I have father", father says "Good son what is that is it?". The son replies "I've only been a Manchester CITY supporter for an hour and already I hate you Manchester United.


NET-FRÉTTABRÉF
MANCHESTER CITY - KLÚBBINS
6. TÖLUBLAÐ - 5. FEBRÚAR 2004


Ágætu félagar.
1. Ég vil byrja á að óska ykkur hjartanlega til hamingju með stórkostlegan árangur liðsins okkar (loksins) þegar þeir framkvæmdu það ómögulega, að vinna upp 3 - 0 forskot Tottenham og snúa í 4-3 sigur og það einum manni færri. Þvílíkur leikur og annað eins hefur ekki sést í manna minnum. Ég hef heyrt frá nokkrum City-mönnum og ljóst að margir áttu erfitt með svefn vegna geðshræringar. Þvílíkur karakter í liðinu. Frábært.
2. Leikurinn var mjög sérstakur fyrir okkur þar sem landsliðsmarkvörðurinn Árni Gautur Arason stóð í marki okkar manna. Strákurinn sýndi stórleik, sérstaklega í síðari hálfleik. Manchester Evening Standard, stærsta blaðið í Manchester var með netkosningu í dag um besta leikmann City í leiknum. Þegar síðast fréttist var Árni Gautur með 58% atkvæða og Shaun Wright-Phillips kom næstur með 24%. Þetta segir allt um okkar mann. Bresku blöðin og netmiðlarnir hrósa City-liðinu í hástert og talað er um að annar eins leikur hafi ekki verið leikinn í langan tíma. Stórkostlegt afrek Manchester City sögðu margir. Og eitt blaðið var með fyrirsögnina: Look out James!
3. Ég horfði á leikinn með tveimur dyggum City-mönnum, þetta voru þeir Tómas Hallgrímsson og Lúðvík Birgisson. Við höfðum á orði þegar stutt var til leikhlés og staðan 2-0 fyrir Tottenham, að ef City ætti að eiga einhverja möguleika þyrftu þeir að minnka muninn fyrir leikhlé. Mínútu síðar skorar Tottenham þriðja markið og örskömmu síðar fækkar um einn í liði okkar. Við grétum ekki, en það var helvíti nálægt því. Við óskuðum þess fyrst og fremst að City kæmist frá leiknum "uppistandandi". Hvað við áttum eftir að hafa rangt fyrir okkur. Sem betur fer.
4. Næsti leikur í bikarnum er gegn Manchester United. Við gefum allt í þann leik og leikurinn í gærkvöldi á að vera gott veganesti fyrir þann leik. Það má hugsa sér einhverja góða samkomu fyrir þann leik. Menn eru beðnir um að tjá sig um það.
5. Mikið rosalega langaði mig að setja inn auglýsingu í útvarpið í dag sem myndi hljóða svona: Ennþá eru örfá sæti laus í Stuðningsmannaklúbb Manchester City á Íslandi. Aðeins svona til að minna á okkur. Svo hafði ég bara ekki efni á því!
6. Ég er annars í fyrramálið á leiðinni til Manchester til þess að sjá mína menn (okkar menn) á móti Birmingham á sunnudaginn. Ég neyðist reyndar að sjá Bolton - Liverpool líka, en tek líklega með mér góða bók. Eða þannig. Ég læt heyra frá mér eftir ferðina og vonandi get ég tekið fínar myndir - t.d. af mörkum City (kannski best að vera ekki of sjálfumglaður).
7. Menn hafa líklega tekið eftir því að lesa má öll fréttabréf klúbbsins á íslensku City-síðunni hans Davíðs Brynjars Sigurjónssonar (http://www.geocities.com/mcfc84). Þeir sem ekki hafa verið með frá upphafi og mögulega fengu ekki fyrstu fréttabréfin, geta lesið þau þar.
8. Ég minntist í síðasta fréttabréfi að ég ætti í vandræðum með nettengingu heima hjá mér. Þeir sem vilja senda póst eru vinsamlegast beðnir um að senda til mín á [email protected].
Fleira ekki í gangi. City-kveðja til ykkar allra.
Magnús Ingvason, formaður.


NET-FRÉTTABRÉF

MANCHESTER CITY - KLÚBBINS

5. TÖLUBLAÐ - 11. JANÚAR 2004


 

Ágætu félagar.

 

1. Ég vil byrja á að óska ykkur gleðilegs árs og friðar. Nokkuð langt er síðan síðasta fréttabréf klúbbsins sá dagsins ljós og eru einkum þrjár skýringar á því. Í fyrsta lagi miklar annir, í öðru lagi dálítil vandræði í nettengingu hjá mér og í þriðja lagi frekar dapurt gengi okkar manna í Englandi. Þetta síðasttalda á þó ekki að vera veigamikil skýring og sú von er í brjósti að það fari að ganga betur. Annað er ekki hægt. Og djöfull er þetta hvimleitt ástand!

 

2. Liðinu okkar hefur ekki gengið sem skyldi að undanförnu. Nú eru komnir 13 leikir án sigurs og einungis gott gengi í upphafi forðar okkur frá þremur neðstu sætunum. Maður er alltaf að reyna að átta sig á því af hverju þetta skuli vera svona. Það virðist ekkert ganga; hvorki gegn hinum svokölluðu stórliðum né liðum sem maður myndi ætla að við ættum að sigra.

 

3. Það virðist sem okkar menn séu einfaldlega ekki í standi. Aftasti hluti liðsins virðist vera mjög slappur. Þá er ég líka ósáttur við stóru nöfnin, menn eins og McManaman, Sinclair og Fowler. Allt fyrrum enskir landsliðsmenn sem eiga að vera upp á sitt besta á þessum aldri. Þeir eru ekki svipur hjá sjón. Annars er hægt að diskútera þetta fram og aftur.

 

4. Annars berast góð tíðindi frá félaginu þessa dagana, en Árni Gautur Arason mun æfa með liðinu á næstu dögum. Það er vonandi að hann fái tækifæri enda frábær markmaður. Ekki leist mér sérstaklega vel á þennan Ellegard í leiknum í gær og Seaman hefur farið mikið aftur á stuttum tíma.

 

5. Fréttabréf klúbbsins eru komin á íslenska Manchester City-vefinn. Þar má fletta þeim upp og lesa. Væntanlega bætist þetta fréttabréf við safnið. Annars eru félagar hvattir til þess að kíkja á vefinn af og til og þá jafnvel leggja eitthvað til málanna á spjallsvæðinu.

 

6. Eitt af því sem klúbbnum var ætlað að gera er að standa fyrir ferð til Englands á leik með City. Þetta hefur eitthvað verið orðað, en það virðast ekki vera margir sem eru að spá í þetta. Ekki nógu margir í sérstaka ferð. Sjálfur er ég að spá í ferð með ÍT-ferðum nú í febrúar, en ég og félagar mínir höfum farið út á hverju ári síðustu 6 ár. Ég geri því ráð fyrir að sjá City gegn Birmingham sunnudaginn 8. febrúar. Það er kannski tilvalið fyrir aðra City-menn að spá í þessa ferð og þennan leik. Finna má upplýsingar hjá ÍT-ferðum.

 

7. Næsti leikur City er gegn Blackburn um næstu helgi. Á þessu stigi veit ég ekki hvort leikurinn verði sýndur eða ekki, en það er að fara koma tími á að við hittumst og horfum á leik í Ölveri. Best væri að sjá annað hvort sunnudagsleik eða mánudagsleik. Fylgst verður með.

 

8. Ég vil þakka nokkrum félögum fyrir ötula félagaöflun að undanförnu og hvet um leið alla til þess að drífa í félagið þá sem þeir vita um.

 

9. Ég vona að næsta fréttabréf komi út innan skamms. Gott væri að fá komment frá félagsmönnum sem síðan er hægt að birta í bréfinu.

 

Kveðja.

Magnús Ingvason, formaður

 


NET-FRÉTTABRÉF

MANCHESTER CITY - KLÚBBSINS

4. TÖLUBLAÐ - 5. NÓVEMBER 2003

 

Ágætu félagar.

1. Ágætlega gengur hjá okkar mönnum í Englandi. Liðinu vantar þó enn þann stöðugleika sem þarf til þess að vera á meðal allra efstu liða. Slæmt tap gegn Úlfunum og síðan gegn Chelsea varð til þess að við þokuðumst lítið upp töfluna. Svo kom sterkur og ánægjulegur sigur gegn Southamton um síðustu helgi þar sem Robbie nokkur Fowler skoraði glæsilegt mark. Í millitíðinni komst City áfram í ensku deildarbikarkeppninni og mætir Tottenham í næstu umferð. Um helgina tekur liðið svo á móti Leicester og þar verða að koma 3 stig. Leikurinn verður án efa sýndur í Ölveri og bið ég menn um að fylgjast með (síða 667 í Textavarpinu).

2. Næsti leikur er hins vegar gegn pólska liðinu Groclin í þriðju umferð Evrópukeppninnar annað kvöld, fimmtudagskvöldið 6. nóvember. Leikurinn verður sýndur á Ölveri og hefst samkvæmt mínum heimildum kl. 20:00 (í síðasta Evrópuleik skoluðust tímasetningar eitthvað til). Ég hvet menn til þess að mæta á svæðið og horfa á leikinn í „vinahópi."

3. Pólska liðið er á meðal efstu liða í pólsku deildinni um þessar mundir, en opinbert nafn liðsins er Klub Sportowy Groclin Dyskobolia Grodzisk Wielkopolski (hvorki meira né minna (væri gaman að sjá allt nafnið á markatöflu)). Í fyrstu umferðinni sló liðið út litháískt lið, Atlantas og í annarri umferðinni átti það þátt í óvæntustu úrslitum Evrópukeppninnar til þessa þegar það sló út Herthu Berlin. Groclin vann samanlagt 1-0. Þetta virðist því ágætis lið, en krafan hlýtur þó að vera sigur.

4. Ég minntist hér að ofan á leik gegn Chelsea, en hann var sýndur á Sýn. Ég horfði á leikinn og varð fyrir gífurlegum vonbrigðum með sjónvarpslýsinguna á þeim leik. Nánast allt sem leikmenn Chelsea gerðu var frábært og þessi Mutu mátti einfaldlega ekki fá boltann án þess að þulurinn hrópaði upp hástemmd lýsingarorð. Ég hef ekki orðið vitni (eða tekið eftir) að annari eins hlutdrægni og á köflum var þetta neyðarlegt. Dæmi: Wanchope féll við í samstuði við leikmann Chelsea og að mati þularins var þetta leikaraskapur sem „á ekki að sjást á leikvellinum." Þremur mínútum síðar datt áðurnefndur Mutu í samstuði og í endursýningu sást að ekki var brot. Þulurinn sagði þá að menn yrðu að nota ýmis brögð til þess að komast af. „Fyndnust" voru ummæli um réttilega dæmda rangstöðu á City. Vandamálið var að sá rangstæði og aftasti varnarmaður Chelsea voru ekki í mynd. Í kringum 25 önnur ummæli lét ég fara í taugarnar á mér. Þetta var „amatörismi" af verstu gerð og á meðan svona er í gangi getur Sýn ekki auglýst sig sem „bestu íþróttastöð í heiminum" eins og heyra má í auglýsingum þeirra. Ég er áskrifandi að stöðinni og á kröfu á faglega og hlutlausa umfjöllun. Mér finnst ekki raunhæfur kostur að slökkva á lýsingu, því ég borga að sjálfsögðu líka fyrir hana.

5. Við höfum aðeins verið að pæla í nafni á leikvanginum, City of Manchester Stadium. Samkvæmt áreiðanlegum fréttum er nafn leikvangsins aðeins til bráðabirgða, en varanlegt nafn verður líklega ákveðið í samráði við styrktaraðila. Lesendur enska City-fréttabréfsins fengu að láta álit sitt í ljós nú í október og urðu úrslitin eftirfarandi: 1. City of Manchester Stadium. 2. Eastlands. 3. Blue Camp. Sjálfur er ég sammála Kristni Guðjónssyni (sjá lið 9) og líst nokkuð vel á The City Stadium.

6. Enn eru menn að skoða hvað gera eigi við Maine Road. Helstu hugmyndir í dag eru að rífa leikvanginn og bygga 400 íbúðir fyrir gamla fólkið. Framkvæmdir eiga þá að hefjast í vor. Síðan City hætti að leika á vellinum hefur íbúðarverð við völlinn hækkað um 25%.

7. Í fréttablaðinu News of the World er ítarleg frásögn og myndasería af nokkrum leikmönnum Manchester City á næturklúbbi í Colchester. Robbie Fowler er þar í aðalhlutverki. Þar er hann "wasted" (eins og það er orðað undir myndinni) og á annarri mynd er hann að kyssa einhverja ljósku (og þess getið að eiginkona og þrjú börn hafi beðið heima). Í greininni eru fjálglegar lýsingar á drykkjuskap leikmanna City og að þeir hafi drukkið yfir 200 bjórflöskur um kvöldið. Þeir sem voru þarna um kvöldið voru Steve McManaman, Danny Tiatto, Claudio Reyna, Trevor Sinclair og Jonathan Macken, auk Fowlers. Reyndar er tilgreint sérstaklega að McManaman hafi hagað sér vel og verið edrú. Blaðið News of the World þykir ekki sérlega áreiðanlegt og vonandi að þessar sögur séu töluvert ýktar.

8. Félagafjöldinn í félaginu okkar er nú að nálgast 40. Ég vil þakka þeim sem hafa verið ötulir að finna City menn á undanförnum vikum með áskorun um að allir láti til sín taka í þeim efnum.

9. Í síðasta fréttabréfi óskaði ég eftir hugmyndum um nafn á félagið okkar. Ég fékk nokkur svör og skulu þau birt hér. Eins og áður eru bréfin stytt aðeins (og ávörpum og kveðjum sleppt) í einhverjum tilfellum.

Hallgrímur Kúld: Legg til að klúbburinn verði kallaður Manchester City - klúbburinn á Íslandi.

Hallur Hallsson: Ég held mig við Íslandsdeild Manchester City.

Haraldur Aðalbjarnarson: Mér líst best á Blái City herinn á Íslandi.

Kristinn Guðjónsson: Takk fyrir gott fréttabréf. Hef svolítð verð að spá í nafn á félagið og held að mér lítist best á Íslandsdeildina, þó að það minni svolítið Amnesty International, svona fyrst að minnsta kosti. Eins er með nafnið á nýja leikvanginum, ég hélt eins og fleiri að þetta væri bráðabirgðanafn. Það var kosning á heimasíðu félagsins í vor um nýtt nafn (þar valdi ég Blue Moon (Stadium)) en síðan hefur ekkert verð minnst á það meira, annars líst mér best á The City Stadium. Á síðunni Man City Mad er að finna mikinn fróðleik um gengi liðsins gegnum tíðina en það hefur verið svona upp og niður eins og flestir vita. Við vonum að betri tímar séu framundan. En ef liðið ætlar að vera í toppbaráttuni í vetur verður að bæta vörnina og markvörsluna, við sjáum það

best á markatölunni miðað næstu lið. Með City kveðju.

Davíð Brynjar Sigurjónsson: Mér datt bara þetta nafn á klúbbinn í hug þegar ég var að lesa yfir hin
nöfnin;
Blámáni (Blue Moon).

Sigurjón Bragason: Mér líst mjög vel á Íslandsdeild Manchester City.

10. Ég læt svona í lokin fylgja með grein í enska netfréttablaðinu sem ég fæ tvisvar í viku. Þessi grein er reyndar í kringum 10 daga gömul.

NO WONDER KEV'S GONE TO ICELAND.........
The rumours concerning Eidur Gudjohnsen have gained further credence this week. According to the Sunday Mirror, City are closing in on Gudjohnsen, and have also enquired about Dutch defender Mario Melchiot. The paper also claims that KK has finally lost patience with Robbie Fowler. Keegan will not have a clear run at the Icelander, however. Monday press reports in the North East state that Sir Bobby Robson has also made an enquiry for Gudjohnsen, who is seen as a potential successor to Alan Shearer's number nine shirt.

Með Manchester City - kveðju

Magnús Ingvason


NET-FRÉTTABRÉF

MANCHESTER CITY - KLÚBBSINS

3. TÖLUBLAÐ - x. OKTÓBER 2003

 

Ágætu félagar.

1. Ég vil byrja á að þakka hlý orð í garð þessa fréttabréfs. Megin tilgangur þess er að þjappa saman City-stuðningsmönnum og ef það tekst er það vel.

2. Helstu fréttirnar frá Englandi í dag er áhugi Kevin Keegans á Eiði Smára Guðjohnsen. Það er óhætt að segja að gaman væri að fá hann til liðs við City. Það eru þó ekki miklar líkur á að Chelsea vilji selja hann. Eins hefur verið sagt að til að fá Eið Smára þurfi Keegan að losa Fowler frá félaginu og eins og staðan er í dag bíða kaupendur varla í löngum röðum. Það er þó aldrei að vita hvað gerist.

3. City tapaði fyrir Wolves í síðustu umferð. Úrslitin þýða aðeins eitt; maður er lagður í einelti í þrjá til fjóra daga. Svo lagast þetta. Síðustu 3 leikir (gegn Fulham, Tottenham og Wolves) hafa aðeins skilað tveimur stigum og það er einfaldlega ekki nógu gott. Vonandi nær Keegan að peppa þetta aðeins upp. Svona gengur þetta ekki ef við ætlum okkur að vera í toppbaráttunni í vor.

4. Næsti leikur er Evrópuleikur gegn Lokeren þann 15. október. Töluverðar líkur eru á að leikurinn verði sýndur hér á landi. Fylgst verður með og félagar látnir vita a.m.k. með tveggja daga fyrirvara. Fyrri leiknum lauk með naumum 3-2 sigri City og því ljóst að síðari leikurinn verður erfiður. Við verðum að vinna og komast áfram.

5. Í síðasta fréttabréfi minntist ég á umræður í netfréttabréfi City-stuðningsmanna á Englandi um nafn á nýja leikvanginn. Nú gefst stuðningsmönnum kostur á að kjósa um nöfn, en ég er ekki klár á því hvað verði gert við niðurstöðurnar (var verið að spyrja um það í fréttabréfinu, en engin svör enn sem komið er (eftir að ég skrifaði þetta barst bréf frá Sigurjóni Bragasyni sem skýrir þetta töluvert (sjá lið 10 hér fyrir neðan))). Þetta er því mögulega aðeins til gamans gert eða þá að stuðningsmenn ætli að kalla leikvanginn því nafni þrátt fyrir annað nafn. Undirrótin er óþjált nafn leikvangsins, City of Manchester Stadium. Nú getið þið líka kosið um nafn með eftirfarandi hætti. Sendið tölvupóst á [email protected] og skrifið ykkar tillögu að nafni í subject-línuna. Ekkert annað. Sendið svo. Og nöfnin sem koma til greina eru eftirfarandi:

- Hyde Road
- Maine Road
- New Maine Road
- Blue Camp
- The City of Manchester Stadium
- The City Stadium
- The Commonwealth Stadium
- Eastlands
- Manchester City Ground
- The Citadel

6. Og fyrst talað er um kosningar þá er ekki úr vegi að hafa sama fyrirkomulag vegna nafns á okkar félagi. Í síðasta fréttabréfi bað ég um tillögur um nafn. Einhver viðbrögð fékk ég, en almennt tjáðu félagsmenn sig ekki mikið um málið. Mikilvægt er fyrir stjórn félagsins að heyra álit félaga þar sem m.a. er möguleiki á að framleidd verði félagsskírteini á næstunni og þá þarf félagið að heita eitthvað. Nú skulum við því hafa dálítið formlega könnun. Ég vil að menn taki afstöðu til neðangreindra nafna og sendi það með svipuðum hætti og hér að ofan Sendið tölvupóst á [email protected] (eða reply) og skrifið ykkar tillögu að nafni í subject-línuna. Ekkert annað. Sendið svo. Og nöfnin sem koma til greina eru eftirfarandi:

- Manchester City-klúbburinn á Íslandi- Íslandsdeild Manchester City

- Íslandsdeild Manchester City félaga/stuðningsmanna

- Manchester City-félagið á Íslandi

- Stuðningsmannafélag Manchester City á Íslandi

- Aðdáendafélag Manchester City á Íslandi

- Landssamtök Manchester City stuðningsmanna á Íslandi

- Alþjóðaasamtök Manchester City stuðningsmanna á Íslandi

- Blái herinn á Íslandi

- Bláeygu bítlarnir frá Manchester

- Bláskjár- Blái knötturinn

Félögum er heimilt að koma með aðrar hugmyndir að nafni eða mögulega einhverjar „varíasjónir" við þessi. Ef eitthvað verulega snjallt kemur fram verður það borið undir félagsmenn (athugið að síðustu nöfnin á listanum eru dálítið óvenjuleg og svona meira til þess að hrista aðeins upp í þessu. Það má þó kjósa þau).

7. Í enska netfréttabréfinu eiga sér stað líflegar umræður um alls konar mál. Einn skrifaði í síðustu viku og bað menn um að hætta að kenna Sun Jihai um allt sem miður fer. Viðkomandi benti á að Sun hafi átt fleiri fyrirgjafir í síðasta leik heldur en vængmennirnir Tarnat og Sinclair til samans.

8. Loks má nefna að það kom fram í netfréttabréfinu enska að Ungfrú Manchester er mikill stuðningsmaður City og fer á alla heimaleiki liðsins. Það er ekki slæmt að hafa sætu skvísurnar í okkar liði.

9. Eins og nefnt var í fyrsta fréttabréfi klúbbsins var til fyrir nokkrum árum stuðningsmannafélag Manchester City á Íslandi. Til er félagaskrá frá þeim tíma. Fróðlegt er að bera hana saman við félagaskrána núna. Í dag eru hjá okkur 34 félagar. Helmingur þeirra, 17 félagar voru skráðir í gamla félagið. Hins vegar eru 42 einstaklingar í gömlu félagaskránni sem ekki eru í nýja félaginu. Reyndar hef ég talað við tvo þeirra og hvorugur er City-maður. Það er því ekki víst að allir í gamla félaginu hafi verið stuðningsmenn. Markmiðið er þó að fá upplýsingar um stærstan hluta þessara einstaklinga. Í þessu fréttabréfi og nokkrum þeim næstu ætla ég að birta nöfn einstaklinga sem voru á skrá í gamla félaginu. Ef þið kannist við nöfnin, hafið þá samband við viðkomandi og skráið í félagið með því að senda mér helstu upplýsingar (þ.á.m. netfang).

Friðjón R. Friðjónsson

Þorsteinn Halldórsson

Sigurður Helgason

Egill Gunnarsson

Eysteinn Guðmundsson

Geir Þorsteinsson

Gísli Willardsson

Hafsteinn Már Einarsson

Jón Þór Friðgeirsson

Kristján Björnsson

Marteinn Guðgeirsson

Tryggvi Magnússon

10. Sigurjón Bragason, Hallur Hallsson og Torfi Magnússon fá prik fyrir að koma inn með nýja félaga.

11. Fréttabréfinu hefur borist nokkur bréf frá félögum. Í einhverjum tilfellum eru bréfin stytt aðeins (og ávörpum og kveðjum sleppt).

Hallur Hallsson: Íslandsdeild Manchester City hljómar vel. Borðinn er glæsilegur.

Már Elíson: Manchester City bréf - vonlaust að lesa.

Haraldur A. Haraldsson: Takk fyrir póstinn, hann er mjög læsilegur og röndin kemur vel út.

Starri Heiðmarsson: Þakka fréttabréfin! Ég skoða póstinn minn í Lotus Notes og þar var síðasta fréttabréf nánast ólæsilegt vegna MCFC merkisins sem þakti allt bréfið. Þetta var þó auðleyst en ég flutti bara texta fréttabréfsins yfir í Word.

Hallgrímur Kúld: Takk fyrir meilið. Líst vel á að fara á leik með City og skemmtilegast væri að fara 13. mars á City-United og ég var að tala við Þóri Jóns hjá Úrval-Útsýn um að þeir skipulögðu ferð á leikinn. Hann sagði að við ættum sem klúbbur að athuga hvað við gætum fengið marga miða en við yrðum að vera skráðir City-klúbbur hjá þeim eða svo hélt hann.Væri gaman eð fara sem hópur sérstaklega á þennan leik.

Sigurjón Bragason: Ég stóð í þeirri trú, að City of Manchester Stadium væri bráðabirgðarnafn, á meðan á byggingu leikvangsins stóð. Þegar nær dró, þá voru uppi hugmyndir að skíra völlinn í samráði við aðal fjárhagsaðilann sem er FIRST ADVICE. Þeir lentu hins vegar í fjárhagserfiðleikum. En ekkert varð úr þessu og nafnið var látið halda sér. Ég veit ekki betur en nýr fjárhagsaðili sé THOMAS COOK, ferðaskrifstofa sem er mjög þekkt á Bretlandi. Þeir verða með auglýsingu á búningum City næsta tímabil og væntalega verður völlurinn nefndur í samráði við þá. Eins og kom fram í síðasta fréttabréfi eru ýmis nöfn sem koma til greina. Mér finnst EASTLAND STADIUM vera gott og þjált nafn sem hlýtur að koma til greina, þar sem völlurinn stendur á svæði sem heitir Eastland. Einnig er CITY PARK ágætisnafn.

Með Manchester City - kveðju

Magnús Ingvason


NET-FRÉTTABRÉF

MANCHESTER CITY - KLÚBBSINS

2. TÖLUBLAÐ - 25. SEPTEMBER 2003

 

Ágætu félagar.

1. Nokkrir félagar nýja félagsins okkar hittust í Ölveri í gærkvöldi til þess að horfa á Evrópuleik Manchester City gegn belgíska liðinu Lokeren. City-liðið lék eins og sá sem að valdið hefur, en úrslit leiksins urðu þó vonbrigði. Tvö verulega ódýr mörk rýrir möguleika City á að komast áfram, en samt sem áður verður maður að vonast eftir sigri í Belgíu. Jafntefli væri ásættanlegt. Aðalmálið er að komast áfram í keppninni. Síðari leikurinn fer fram í Belgíu þann 15. október nk. Þess má geta að íslenskir leikmenn Lokeren stóðu sig vel og skoraði Rúnar Kristinsson síðara mark liðsins.

2. City gerði 2 - 2 jafntefli gegn Fulham um síðustu helgi. Ákveðin vonbrigði, en þó stig. Í síðara marki Fulham var varnarleikur okkar manna undir frostmarki.

3. Næsti leikur City er gegn Tottenham á sunnudaginn. Í óformlegri könnun í gær sáu margir sér ekki fært að mæta í Ölver og horfa á leikinn, þannig að ekki er boðið til sérstaks fundar þá. Það er kannski heldur ekki nauðsynlegt að horfa á alla leiki saman, heldur mæta svona af og til og blása þá til sóknar í því skyni að fá sem flesta til að mæta.

4. Ég hef nú ekki hugsað mér að ræða mikið um City-liðið í þessum fréttabréfum. Ég má þó til með að ræða um ákveðna þætti sem ég hef áhyggjur af. Fyrir það fyrsta er varnarleikurinn ekki í nógu góðu lagi. Allt of mörg klaufamörk hafa litið dagsins ljós það sem af er tímabilinu. Í öðru lagi er Seaman ekki að standa sig eins vel eins og maður vonaði í fyrstu (tengist kannski varnarleiknum). Í þriðja lagi verður Robbie Fowler að fara að sýna eitthvað, þetta slen gengur ekki lengur. Já, þetta er svona það helsta. Flest annað virðist vera í góðu lagi.

5. Stjórn félagsins hefur ekki enn komið saman til formlegs fundar, en það stendur til bóta. Ekki það að það sé einhver gífurleg starfsemi í gangi. Eins og minnst var í 1. tölublaði er ætlunin að halda hópnum dálítið saman með þessu NET-fréttabréfi, hittast af og til yfir leikjum, spá og spekúlera í ferð til Manchester og svo fjölga í félaginu. Þá væri gaman að geta útbúið sérstök félagsskírteini. Þetta eru svona helstu atriðin.Félagsmenn eru hvattir til þess að koma með frekari hugmyndir um starfsemi. Þetta á að vera svona grasrótarfélag þar sem allir leggja eitthvað til málanna. Bréf eru sérstaklega velkomin. Ég geri þá ráð fyrir að þau megi birta í þessu NET-fréttabréfi og þá undir nafni. Ef menn vilja ekki að nafn þeirra verði birt (tengt við bréfið), þá bið ég þá um að taka það fram.

6. Áréttuð er sú ósk um að félagsmenn sendi upplýsingar um City-menn á Íslandi. Sjálfur hef ég hringt í nokkra og skráð þá í félagið. Aðrir hafa gert það sama þannig að félagafjöldinn hefur aukist úr 20 í 32 á nokkrum vikum. Ég held að það sé auðveldlega hægt að tvöfalda þennan fjölda. Nú ættu allir að einbeita sér að því að koma a.m.k. einum félaga inn í félagið. Sendið upplýsingar í tölvupósti.

7. Það væri gaman að fá álit félaga á nafni félagsins. Ég held reyndar að það sé ekki alveg ljóst hvað félagið heitir. Manchester City-klúbburinn, Manchester City-félagið á Íslandi, Stuðningsmannafélag Manchester City (á Íslandi), aðdáendafélag Manchester City á Íslandi o.s.frv. Þetta var kannski ekki alveg afgreitt á stofnfundinum. Ég lýsti þeirri skoðun minni á fundinum að við ættum að vera dálítið öðruvísi en aðrir. Þá kæmu til greina nöfn eins og Landssamtök Manchester City stuðningsmanna (á Íslandi), Íslandsdeild Manchester City (stuðningsmanna), Alþjóðaasamtök (eða Alþjóðafélag) Manchester City stuðningsmanna á Íslandi (dálítið lang(t)(sótt)) o.s.frv. Gaman væri að heyra hugmyndir manna um þetta mál (sem skiptir vissulega máli).

8. Vel á minnst. Það vita náttúrulega allir hvað CITY merkir. Jú, Championship In Two Years.

9. Í netfréttabréfi City-stuðningsmanna á Englandi eru alltaf ýmsar skemmtilegar pælingar. Nú eru menn að tjá sig dálítið um nafn á nýja leikvanginum, en City of Manchester Stadium (sem menn ræða almennt um sem COMS) vekur mismikla hrifningu. Meðal þeirra fjölmargra hugmynda sem fram hafa komið eru: Academy of Science and Fine Art, Maine Road, New Maine Road, Eastlands, The City Stadium, Blue Camp og Comstad.

10. Uppreisnarmenn í Írak hafa náð Saddam Hussein á sitt vald. Bandaríkjastjórn býður þeim 19 milljónir dollara fyrir Hussein. Chelsea býður 20 milljón dollara.

11. Loks er enn og aftur minnt á Íslensku City-síðuna. Vefslóðin er:

http://www.geocities.com/mcfc84

Með Manchester City - kveðju

Magnús Ingvason

PS. Ég var að velta því fyrir mér hvernig þessi NET-póstur birtist félögum. Einn félagi hafði samband og sagðist ekki geta lesið póstinn vegna "skrauts" sem er á síðunni, en vinstra megin á síðunni er blár borði með City-merki. Ég vona að þetta komi fram í tölvum félaga. Skiptir máli með póstforritið. Þeir sem ekki sjá þetta "skraut" mega láta mig vita. Ég myndi sjá svolítið eftir því ef það þyrfti að hverfa.

 


NET-FRÉTTABRÉF

MANCHESTER CITY - KLÚBBSINS

1. TÖLUBLAÐ - 18. SEPTEMBER 2003

 

Ágætu félagar.

1. Í þessu fyrsta fréttabréfi Manchester City - stuðningsmannafélagsins er ætlunin að reifa aðdraganda og stofnun félagsins. Ritstjóri fréttabréfsins og jafnframt formaður félagsins ráðgerir að koma því út af og til, jafnvel vikulega.Það veltur þó dálítið á viðtökum félagsmanna og hversu duglegir þeir verða að aðstoða við útgáfuna. Æskilegast er að þeir komi með fréttir, hugleiðingar, ábendingar o.s.frv. á framfæri í fréttabréfið við og við og oft þess á milli.

2. Fyrir 6 árum var stofnað Stuðningsfélag Manchester City á Íslandi. Stofnfundurinn var fjölsóttur og hugur í mönnum. Starfsemi þess félags varð þó ekki jafn blómleg og efni stóðu til. Að hluta til hélst það í hendur við gengi liðsins í Englandi sem var svona upp og ofan á þessum árum. Eftir stendur þó þokkaleg félagaskrá sem getur verið ágætur grunnur fyrir nýtt félag.

3. Síðan fyrra félagið dó drottni sínum, þá hafa umræður margra City-manna sem hafa hist á förnum vegi m.a. snúist um það hvort ekki væri tímabært að stofna nýtt félag. Fyrir skömmu ákváðu svo fjórir stuðningsmenn að hittast á undirbúningsfundi þar sem rætt var um að stofna nýtt félag. Þessir fjórir einstaklingar eru: Atli Eðvaldsson, Heimir Guðjónsson, Lúðvík Birgisson og Tómas Hallgrímsson.

4. Á þriðja tug manna mætti í Ölver til þess að stofna klúbbinn. Gríðarlegur fjöldi City -stuðningsmanna hefur líklega ekki komist á fundinn, en vill samt tilheyra þessari fjöldahreyfingu. Mikill hugur var í mönnum og flestir töldu tímabært að blása til sóknar hér á klakanum um leið og liðið okkar blési til sóknar; bæði í Bretlandi og í allri Evrópu lika.

5. Á fundinum var kosin/skipuð þriggja manna stjórn. Hana skipa: Magnús Ingvason, formaður, Tómas Hallgrímsson og Sveinbjörn Jóhannsson.

6. Það er svo spurning hvað svona félag gerir. Stjórn félagsins hefur ekki enn komið saman til þess að leggja línurnar fyrir frekari starfsemi, en í mínum huga eru nokkur atriði veigamest. Í fyrsta lagi góð samskipti félagsmanna, m.a. í gegnum netfréttabréf eins og þetta þar sem félagsmenn geta komið ýmsu á framfæri. Í öðru lagi að hittast af og til og horfa á City-leiki saman. Í þriðja lagi að standa fyrir ferð á City of Manchester Stadium og sjá liðið með eigin augum (margir hafa gert það). Í fjórða lagi að tengjast erlendum City-stuðningsmannaklúbbum, þ.e.a.s. að taka þátt í alþjóðlegri starfsemi. Í fimmta lagi að gera eitt og annað sem getur þjappað stuðningsmönnum félagsins saman með einum eða öðrum hætti.

7. Ljóst er að stuðningsmenn Manchester City er að finna út um allt land (já og út um allan heim). Það er mikilvægt að menn sendi upplýsingar um alla þá sem þeir þekkja og styðja félagið. Best er ef hægt er að hafa samband við viðkomandi og fá upplýsingar um nafn, kennitölu, heimili, póstnúmer, netfang, símanúmer og gsm-númer (feitletruðu atriðin mikilvægust). Brettum nú upp ermarnar og ráðumst í það verkefni að stórfjölga í félaginu. Þeir sem safna yfir 1300 félagsmönnum fá verðlaun !

8. Ásæða er til að minnast á Íslensku Manchester City - síðuna sem Davíð Brynjar Sigurjónsson, framhaldsskólanemandi á Egilsstöðum heldur úti af myndarskap. Þar er mikið af upplýsingum um hvaðeina sem snertir City auk netspjalls. Félagsmenn eru hvattir til þess að „spjalla" saman þar, helst undir eigin nafni. Undirritaður hefur rætt við Davíð Brynjar og óskað eftir því að sérstakur tengill verði á síðunni fyrir félagið okkar. Þar verði m.a. að finna öll netfréttabréf félagsins.

9. Í lok þessa fréttabréfs er ekki úr vegi að gleðjast yfir glæsilegum og öruggum sigri á Aston Villa, 4 -1 um síðustu helgi. Manchester City er á meðal efstu liða og verða það (vonandi) líka í vor.

Með Manchester City - kveðju

Magnús Ingvason

Ýmsir tenglar

Íslenska City-síðan - http://www.geocities.com/mcfc84

Manchester City fréttabréfið - [email protected]

Heimasíða alþjóðlegra stuðningsmanna - http://www.mcfc.co.uk/extra/fanzone/isc.asp
Opinber heimasíða stuðningsmanna -
http://www.mancity.net/osc

Heimasíða félagsins - http://www.mcfc.co.uk/

Bein netútsending frá leikjum - http://www.mcfc.co.uk/comment.asp

Heimasíður nokkurra leikmanna - http://www.uit.no/mancity/players/

 


Hosted by www.Geocities.ws

1